Viðtal tekið af mbl.is/skapti hallgrímsson
Hollenska rokkhljómsveitin Focus hélt tvenna tónleika hérlendis fyrir tveimur árum og snýr aftur í haust. Thijs van Leer og félögum var afar vel tekið, bæði í Bæjarbíói í Hafnarfirði og á Græna hattinum á Akureyri. Gestir hattsins fá að njóta á ný, föstudag 22. september, en syðra kemur sveitin fram á Hard Rock Café kvöldið áður. Þeir loka svo hringnum á hinni gamalgrónu JEA jazzhátíð í Egilsbúð Neskaupstað.
Thijs van Leer, stofnandi Focus, söngvari sveitarinnar, orgel- og þverflautuleikari, kveðst hlakka mikið til Íslandsferðarinnar. „Við erum satt að segja mjög spenntir að koma aftur. Það var mjög vel tekið á móti okkur og tónleikagestir voru frábærir, bæði í Reykjavík og fyrir norðan. Við flugum norður en keyrðum aftur til Reykjavíkur sem var mikil upplifun því landið er svo fallegt,“ sagði van Leer þegar blaðamaður Morgunblaðsins ræddi við hann í síma á dögunum.
Ekki símaat!
Hljómsveitin kemur til landsins á vegum Hauks Tryggvasonar, eiganda Græna hattsins, eins og fyrir tveimur árum. „Við töluðum ekkert um það síðast að þeir kæmu aftur, en svo óskuðu þeir eftir því og við höfum í töluverðan tíma reynt að finna heppilegan tíma,“ segir Haukur.
Focus hefur lengi verið í uppáhaldi hjá Hauki og þegar hann fékk símtalið fyrir tveimur árum hélt hann að einhver vina sinna væri að gera símaat:
„Góðan dag. Ég er að hringja fyrir hollensku hljómsveitina Focus. Hún hefur áhuga á að koma og halda tónleika hjá þér. Er það mögulegt?“
Lög sveitarinnar hljóma oft í hátölurum Græna hattsins fyrir tónleika og jafnvel á eftir, meðan gestir tínast út. Nokkrum dögum áður hafði Haukur nefnt við vin sinn að gaman yrði að fá þessar gömlu hetjur í heimsókn ...
„Við erum mjög mikið á ferðinni, spilandi á tónleikum út um allt. Akkúrat núna erum við hins vegar í hljóðveri að taka upp plötu – Focus 11. Það er að minnsta kosti vinnuheitið. Við höfum verið 11 daga við upptökur og erum um það bil hálfnaðir,“ sagði Thijs van Leer við Morgunblaðið. Hann kveðst munu bjóða Íslendingum upp á lög af nýju plötunni í haust, en að sjálfsögðu einnig leika gömlu smellina.
Langt ferðalag framundan
Focus kemur fram á nokkrum tónleikum í heimalandinu í sumar, þrennum í Englandi en heldur síðan í ferð um Suður-Ameríku, þar sem sveitin er mjög vinsæl. „Við spilum fyrst í Brasilíu, síðan í Perú, Argentínu og Chile og komum beint þaðan til Íslands. Þetta verður mikið ferðalag en skemmtilegt. Það er öruggt mál.“
Ein breyting hefur orðið á sveitinni síðan hún kom síðast. Udo Pannekeit, „sem er frábær bassaleikari“, er kominn í stað Bobby Jacobs, segir van Leer. Pierre van der Linden trommar, eins og hann hefur gert nánast alla tíð, og Menno Gootjes spilar á gítar.
Forsprakkinn ven Leer er nýorðinn 69 ára og segist fá mikið út úr því að spila með sér yngri mönnum. „Ég er orðinn gamall. Þú þarft ekkert að vera feiminn við að orða það þannig!“ svarar hann kurteislegri spurningu. „Trommarinn van der Linden er reyndar tveimur árum eldri en ég en Gootjes er 41 árs og Pannekeit 39. Þetta eru því tvær kynslóðir í hljómsveitinni, sem er gott. Það er mjög gefandi að spila með sér yngri mönnum,“ segir van Leer.
Byrjaði þriggja ára
Krókurinn beygðist snemma. Foreldrar van Leer eru tónlistarmenn og honum var fyrst stillt upp við píanó þriggja ára gömlum. „Þá sat ég við hlið mömmu en sex ára fékk ég fyrst alvöru kennslu og alla skólagönguna lærði ég á hljóðfæri hjá ýmsum mjög góðum kennurum.“
Faðir hans kenndi stráknum á flautu enda afbragðs blásari sjálfur. Fyrstu árin lék van Leer eingöngu sígilda tónlist, fyrst á píanó og síðan á flautu, 13 ára kynntist hann djassi en snéri sér að rokkinu 18 ára. „Ég hafði yndi af því að spila Bach og Béla Bartok, síðan Coltrane og fleiri slíka djassara. Ég hélt hins vegar að þegar væru svo margir góðir að semja og spila músík að ég yrði ekki samkeppnisfær. Fór því að læra listasögu við háskóla í Amsterdam en þegar mér var boðið í fræga hljómsveit sem spilaði í kabarett-sýningum, 19 ára gömlum, var tónninn sleginn. Þá hófst tónlistarferillinn fyrir alvöru.“
Focus stofnaði van Leer tveimur árum síðar, árið 1969. Hljómsveitin átti hvern smellinn á fætur öðrum og ferðaðist um veröldina þvera og endilanga. „Það var mjög gaman og er enn, herra minn,“ segir hann hinn kátasti.
Focus hætti störfum 1978, tók upp þráðinn 1985 og var starfandi til 1999. Eftir tveggja ára hlé var lífi blásið í sveitina aftur og hún er enn að. Thijs van Leer hefur að auki gefið út nokkrar sólóplötur og er ein þeirra, Introspection, mest selda plata alla tíma í Hollandi. Hún kom út 1972 en fleiri fylgdu í kjölfarið.
Þegar spurt er hvers vegna Focus hafi verið endurvakin árið 2001 kemur í ljós að það stóð hreint ekki til. Bassaleikarinn Bobby Jacobs, sem er stjúpsonur van Leer, stofnaði hljómsveit ásamt tveimur vinum sínum og bauð þeim gamla að vera með.
Þeir hugðust spila gömlu Focus lögin, sem ábreiðuband. Viðtökur voru afar góðar og að áeggjan umboðsmanns, sem falaðist eftir því að vinna með fjórmenningunum, var rykið dustað af Focus-nafninu. „Það tók mig ekki nema eina mínútu að slá til, eftir að sú hugmynd kom fram,“ segir van Leer. „Við byrjuðum á að fara í tónleikaferð til Brasilíu, allstaðar var uppselt og segja má að við höfum verið á nær stanslausu tónleikaferðalagi síðan!“